top of page
nota4 .jpg

Í mars 2022 vinn ég að flík sem ég er að gera fyrir Hönnunarmars en ég tek þátt í samsýningu félaga úr Textílfélagi Íslands.

Ég var svo heppin að erfa afar fallegt og stórt veggteppi sem amma mín Rasmusína 1889 - 1960, Sína eins og hún var alltaf kölluð, saumaði árið 1943. Góbelínsaumað í svartan ullar einskeftujafa. 

Mig langaði alls ekki að hengja stykkið á vegg og velti lengi fyrir mér hvað ég gæti gert við þetta mjög svo fallega stykki. Eitthvað annað en að geyma það í kistu um ókomna tíð. 

Þema okkar í Textílfélaginu þetta árið er enturnýting. Ég hef alla mína tíð endurnýtt efni og notað afganga, umbreytt fötum í annað svo ekki er það nýtt fyrir mér. Áður fyrr var verið að venda fötum, sauma úr gömlu og í aldaraðir hefur endurnýting átt sér stað. Á miðöldum td. biðu fátækari eftir að aðalsfólkið léti af hendi flíkur sínar á bændamarkaði og dýrindis bútar voru á listilegan hátt endurnýttir í ný klæði. Ekkert er nýtt undir sólinni í þessum málum frekar en öðrum. 

Ég stefni á að gera jakka úr veggteppinu hennar ömmu minnar, sýna listilegt handbragð Sínu ömmu sem ég þekkti aldrei. Umvefja mig í verk sem hún handsaumaði og ég get nú notað og vonandi dóttir mín síðar. Ég styðst við snið af nokkrum jökkum sem ég held upp á, franska jakkanum mínum frá Da Da sem var stolið af mér sl. sumar og Aftur jakka sem ég hef gengið mikið í um dagana og fleiri flíkum. Ég módelera jakkann á gínu og sauma hann fyrst úr notuðu sængurveri. Síðan mun ég klippa sniðið út í veggteppið og handsauma jakkann. Helst vil ég nota allt stykkið og mun þvi útbúa dúska og vasa á flíkina. Ef verður afgangur þá mun ég nota hann í púða. Leiðarljós mitt verður virðing fyrir kunnáttu og listfengi ömmu minnar. 

VIÐSNÚNINGUR

​Ég skrapp í Svarfaðardalinn til að fá næði til að vinna að jakkanum á vinnustofunni minni þar. Hendi fallega veggteppinu hennar Sínu ömmu á stóra borðstofuborðið í stofunni og viti menn þar á það heima í bili. Teppið hennar ömmu Sínu sem ætlaði að verða jakki er nú orðinn borðdúkur.

Hvað geri ég nú? Jú ég á nefninlega aðra ömmu, Matthildi sem fæddist 1900 og lést 1986. Við vorum nánar og hún vildi nú endilega að ég færi í fatahönnun til Parísar þegar ég var lítil stelpa. Hún kenndi mér mikið en sjálf lærði hún í Kaupmannahöfn saumaskap áður en kreppan skall á. En það er nú önnur saga.

 

Í fórum mínum hef ég átt hálfklárað veggteppi sem Matta amma kláraði aldrei að sauma og ég hef stundum gripið í. Nú ákvað ég að nota það stykki í jakka. Ég get ekki notað sniðið sem ég var búin að sauma í sængurver og svo aftur í gardínu því það snið passar ekki þessu veggteppi. Í snatri bjó ég til annað snið að jakka og hófst handa. Veggteppið er hálfsaumað í svart klæði. Það er mjög gott því þá umbreyti ég ekki einungis veggteppi ömmu í jakka heldur sauma ég heilmikið út í áteiknað efnið. Þetta færir okkur ömmu nær hvor annarri, ég mun ekki einungis sveipa um mig hennar verki heldur sauma út í óklárað verkið. Koma mínum sporum til hennar, mínir litir blandast hennar. Amma Matta var snillingur í höndunum og gerði eins og ég að módelera á gínur. Hún vann fyrir sér með saumaskap eins og Sína amma.

Ég er ánægð með útkomuna og það verður þessi jakki sem mun lenda á Hönnunarmars. Sínuteppið fallega verður borðdúkur. 

bottom of page